Játning

Ég þarf að gera játningu.

Skuggalega og ljóta játningu.

Ég elska að kreista bólur. Ég elska að horfa á aðra kreista bólur. Ég elska líka að kroppa sár og allskonar exem. Ég á erfitt með mig ef ég hitti fólk með áberandi bólu, sár, exem eða eitthvað sem hægt er að kroppa í eða kreista!

Tilfinningin sem fylgir því að kreista vel þrútna bólu er ólýsanleg. Það er eins og að í nokkrar fallegar sekúndur sé heimurinn vandamálalaus. Vellíðanin sem streymir um líkamann við það að sjá gröftinn flæða út um þetta líkamsop viðkomandi manneskju er engu lík.

Til dæmis er ég búin að vera með krónískt sár í nefninu í örugglega ár núna. Ég bara get ekki fengið mig til að láta það í friði! Eins og það er sárt að kroppa ofan af sárinu þá er tilfinningin svo óumræðanleg að ég læt mig hafa það. Svo bölva ég í hljóði á eftir. En það kemur ekki í veg fyrir að ég byrja að kroppa um leið og eitthvað er komið til að kroppa.

En þarna fylgir böggull skammrifi (hvað þýðir það btw – hver fann upp á þessu?) því eftir að vellíðunin hverfur áttar maður sig á því að heimurinn er alls ekkert vandamálalaus. Vandamálin blasa við manni í formi graftar, blóðs, sársauka og jafnvel sálrænna vandamála sem hljótast af kvöldlöngu áhorfi á bólukreistingar á youtube. Mér leið aðeins betur þegar ég las á internetinu sem allt veit að þetta er viðurkennd þráhyggja eða fíkn; svokölluð acnephilia. Ég sá samt enga lækningu í boði.

Eins og með flesta fíkla þá ætla ég alltaf að bæta mig. Á MÁNUDAGINN mun ég hætta að kroppa í nefið. NÆST þegar ég hitti manneskju með exem í hárinu mun ég ekki spyrja hvort ég megi kroppa í það. Á MORGUN mun ég ekki fletta upp dásamlegum bólukreistingum á youtube.

Ætli Jónína Ben taki á svona fíknum?

2 Comments

  • Katrín Þrastar
    16. mars 2012 - 17:07 | Permalink

    Skemmtileg síða, en þetta er ógeðslegasti pistill sem ég hef lesið held ég 🙂

  • Helga Guðrún
    18. mars 2012 - 15:33 | Permalink

    æi.. *gubb*

  • Skildu eftir svar

    Netfang þitt verður ekki birt.