Salat til að njóta

Að gera vel við mig í mat er eitt af aðaláhugamálunum mínum. Það er eitthvað svo notalegt að borða góðan mat í góðra vina hópi eða jafnvel bara ein með sjálfri mér, í friði og ró. Góður matur þarf ekki að vera flókinn og oft er einfalt betra. Þetta salat varð til eitt kvöldið þegar ég var ein með krakkana og mig langaði í eitthvað rosalega gott og flott.
Þetta er ósköp einfalt. Salatið sem þú átt í ísskápnum og einn eða tveir ávextir. Ég átti mangó og granatepli, bæði eru ávextir sem fríska uppá daginn og er því tilvalið að eiga alltaf í ísskápnum.
Kjötið er nautalund! Já, af hverju ekki? Frá hvaða vöðva af dýrinu kjötstykkið er, skiptir kannski ekki höfuðmáli. Mig langaði í ferskt og milt bragð og því marineraði ég kjötið í smátt skornum hvítlauk, saxaðri basilíku og olíu. Eins einfalt og hægt er að hafa það. Smá salt og pipar útí og þá þetta fullkomnað. Ég marineraði kjötið í nokkra klukkutíma áður en ég lokaði því á pönnu á öllum hliðum og skutlaði því svo inn í ofninn. Þegar það var orðið steikt eins og ég vildi hafa það lét ég það bíða í smá stund áður en ég skar það niður og skellti á salatið. Ég hafði geymt smá af marineringunni og notaði það sem dressingu. Þetta var rosalega gott og bætti alveg fyrir það að kallinn skuli hafa skilið mig eftir eina heima með krakkana á meðan hann fór út að borða á Saffran með vinum sínum!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.