Hérna er smáréttur sem er tilvalinn til að taka með í saumaklúbbinn. Þetta er líka ágætis snarlréttur ef einhver afgangur er, þá er hægt að smyrja þessu á ristað brauð og jafnvel skella smá sultu með.
Eins og allt sem mér finnst gott þá er þetta einfalt og þægilegt í framkvæmd.
Efnistök og innihald
1 dós rjómaostur
1 1/2 -2 kjúklingabringur (eða svipað magn af niðurskornu kjúklingakjöti)
1 dós rifinn piparostur
ca 150-200 ml Sesarsalat dressing
Slatti af sterkri sósu, ég nota Extra Hot Pepper Sause frá Tex Mex
Öllu skellt í hrærivél og hrært saman, mér finnst best að láta kjúklinginn merjast svolítið í skálinni þannig að hann blandist sem best við hin hráefnin.
Þegar þetta er búið að blandast vel er þetta sett í eldfast mót og mozarella osti stráð yfir. Inn í ofn fer þetta á ca 180 gráður og þegar osturinn er gullinn og bráðinn þá er þetta tilbúið. Borið fram með góðu kexi eða jafnvel niðurskornu grænmeti.
Uppskriftina má leika með að vild, t.d. skipta piparostinum út fyrir gráðost og þá er mjög gott að hafa rifsberjasultu með. Dressingin má vera annars konar, þó er ráðlagt að hafa hana með því hún gefur mjög góða fyllingu í bragið. Ekki of mikið af henni þó, hún má ekki yfirgnæfa ostabragðið.