Ektamaðurinn minn bauð mér einu sinni út að borða á margra stjörnu veitingastað erlendis. Við leyfum okkur ekki oft slíkan munað en þegar við það gerum þá erum við ,,all in“. Þriggja rétta kvöldverður, vín og dásamlegur félagsskapur, þessu kvöldi á ég aldrei eftir að gleyma. Við rifjum oft upp matinn sem við fengum okkur, hann var svo góður. Forréttinn sem ég fékk mér hefur mér tekist að endurgera og þegar við gerum vel við okkur heima við í mat þá verður þessi réttur oftar en ekki fyrir valinu sem forréttur. Hann er merkilega einfaldur en örlítið í dýrari kantinum.
Portobellosveppir (einn á mann)
Brie ostur (skorinn til helminga, þannig að formið haldi sér)
Valhnetur
Döðlur
Ekki láta myndina blekka þig, í þetta sinn sá ektamaðurinn um forréttinn og hann skar ostinn vitlaust!
Meira þarftu ekki! Ég skef innan úr sveppunum og fjarlægi stilkinn. Brieostahelmingurinn fer ofan í sveppinn (á að passa fullkomnlega) og svo dreifi ég gróft söxuðum valhnetum og döðlum ofan á. Inn í ofn fara herlegheitin og þetta er um það bil tilbúið þegar osturinn er orðinn nánast bráðinn.
Gjörið þið svo vel!